Til skammar hvernig við komum út í seinni

Ásbjörn Friðriksson í Framhúsinu í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson í Framhúsinu í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta er oft svona á móti Fram, það eru sveiflur í leikjunum en það var til skammar hvernig við komum út í seinni hálfleikinn,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, eftir 27:25-sigur á Fram í Olísdeildinni í handknattleik í kvöld.

„Allt það góða sem við gerðum í fyrri hálfleik fór frá okkur á kortéri og við vorum mikið slakari en við erum vanir að vera,“ bætti hann við í samtali við mbl.is strax eftir leikinn en FH var fimm mörkum yfir í hálfleik og glutraði því góða forskoti niður gegn áköfum Frömurum í þeim síðari.

FH-ingar náðu þó að hrökkva aftur í gang og vinna að lokum mikilvæg tvö stig. Ásbjörn var auðvitað ánægður með stigin en meðvitaður um að liðið þurfi að spila betur. „Við vorum í vandræðum allan leikinn í sókn og það er ótrúlegt að við náum inn 27 mörkum miðað við dauðafærin sem við klikkum á.“

Hvað var það, miðað við þessar lýsingar, sem skilaði þá sigrinum?

„Við erum bara klókir á lokakaflanum, Kristófer [Fannar Guðmundsson] kemur í markið og tekur góða bolta og við förum að spila góða vörn. Þetta var liðsheildin og ekki í fyrsta sinn sem við gerum þetta í vetur. Það er gott að vita þegar kemur að síðustu tíu að við munum vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert