Var ekki lengi að hugsa mig um

Ragnar Jóhannsson t.v. í leik með Hüttenberg.
Ragnar Jóhannsson t.v. í leik með Hüttenberg. Ljósmynd/Mark Thürmer

„Það tók ekki langan tíma að telja mig á að semja við þetta lið. Bæði vegna þess að mig langar til þess að leika á ný í efstu deild og síðan hef ég ekki heyrt annað en vel látið af liðinu og allri umgjörð í kringum það,“ sagði Ragnar Jóhannsson handknattleiksmaður við Morgunblaðið í gær. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við þýska 1. deildarliðið Bergischer HC og gengur til liðs við það um um mitt næsta ár, þegar núverandi keppnistímabil verður afstaðið.

Ragnar, sem á fjóra landsleiki að baki, verður þar með samherji Arnórs Þórs Gunnarssonar frá og með næsta sumri. Bergischer HC kom upp úr 2. deild í vor og situr í 7. sæti deildar með 18 stig að loknum 17 leikjum og þykir hafa komið á óvart með góðri frammistöðu í vetur.

Ragnar hefur síðustu fjögur árin leikið með Hüttenberg sem nú leikur í næst efstu deild en það féll úr efstu deild á síðasta vori.

„Það er tilhlökkun að komast í lið í efstu deild á ný . Nokkuð ljóst er að Hüttenberg fer ekki upp í deildina í vor eftir slaka byrjun okkar í annarri deild í haust. Þótt við höfum rétt úr kútnum síðustu vikur mun það ekki nægja til að við blöndum okkur í toppbaráttuna,“ sagði Ragnar sem er 28 ára gamall og lék með Selfossi og FH hér heima áður en hann gekk til liðs við Hüttenberg.

Ragnar var með samning við Hüttenberg fram á mitt árið 2020 en nýtti sér á dögunum uppsagnarákvæði í samningnum þess efnis að ef lið í efstu deild sýndi áhuga gæti hann sagt samningnum upp fyrir árslok.

„Samningur við Bergischer hefur verið í gerjun síðustu vikur en eftir að alvara kom í málið tók ekki langan tíma að hnýta alla enda. Hér er um tækifæri að ræða sem ekki var hægt að láta ganga sér úr greipum. Allir vilja jú leika í fyrstu deildinni,“ sagði Ragnar.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert