Var erfitt símtal

Bjarki Már Elísson var ekki valinn í 20 manna æfingahópinn.
Bjarki Már Elísson var ekki valinn í 20 manna æfingahópinn. Ljósmynd/Uros Hocevar

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði á blaðamannafundi HSÍ vegna vals á HM æfingahópnum að það hafi verið gríðarlega erfitt að velja leikmenn í stöðu vinstri hornamanns.

Guðmundur valdi þá Guðjón Val Sigurðsson og Stefán Rafn Sigurmannsson en Bjarki Már Elísson er úti í kuldanum.

„Við eigum þrjá frábæra vinstri hornamenn. Ég ákvað að velja bara tvo þar sem undirbúningurinn er skammur. Mér fannst að rétt að taka þessa ákvörðun. Ég hef rætt við Bjarka og hann er klár ef á þarf að halda. Það er erfitt að skilja einn eftir en þetta er eitt erfiðasta val sem ég hef staðið fyrir. Þetta var erfitt símtal við Bjarka en það var gott og hann sýndi þessu skilning sem ég vonaðist eftir,“ sagði Guðmundur Þórður.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Haukur Þrastarson hafa átt við meiðsli að stríða en þeir verða skoðaðir í æfingaleikjunum gegn Barein síðar í þessum mánuði.

Guðmundur segir ekki ákveðið hvort hann taki 16 eða 17 leikmenn á HM. Hann sagði að fyrsta markmið liðsins sé að komast í milliriðilinn sem spilaður verður í Köln en leikir íslenska liðsins í riðlakeppninni fara fram í München.

mbl.is