Blandað lið gegn Barein

Guðmundur Þórður Guðmundsson
Guðmundur Þórður Guðmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlandsliðið í handknattleik mætir Barein í fyrri vináttuleiknum af tveimur í Laugardalshöllinni í kvöld en leikurinn er liður í undirbúningi beggja liða fyrir HM þar sem þau mætast í riðlakeppninni í München.

Ekki eru allir leikmenn í 20 manna æfingahópnum búnir að skila sér heim. Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson verður ekki með í kvöld en hann lék með Rhein-Neckar Löwen í gærvöld. Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson verða í eldlínunni með Kristianstad í kvöld, Sigvaldi Guðjónsson spilar bikarúrslitaleik með Elverum á morgun og Arnór Þór Gunnarsson glímir við meiðsli.

Það verður því blandað lið sem spilar í kvöld en hluti af leikmönnunum sem spila í kvöld voru valdir í 28 manna æfingahóp sem var svo skorinn niður í 20. Átján leikmenn munu skipa hópinn í kvöld sem mætir Barein en þeir eru: Markverðir: Björgvin Gústavsson og Aron Rafn Eðvarðsson. Vinstra horn: Stefán Rafn Sigurmannsson og Vignir Stefánsson. Hægra horn: Óðinn Þór Ríkharðsson. Skyttur hægra megin: Arnar Birkir Hálfdánsson, Rúnar Kárason, Ómar Ingi Magnússon. Miðjumenn: Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Haukur Þrastarson. Skyttur vinstra megin: Aron Pálmarsson og Elvar Örn Jónsson. Línumenn: Ágúst Birgisson, Ýmir Örn Gíslason og Heimir Óli Heimisson. Varnarmenn: Daníel Þór Ingason og Ólafur Gústafsson.

„Við viljum nota þessa leiki til að spila menn til og sjá hvaða leikmenn kom til greina í lokahópinn sem fer á HM. Við fáum allan hópinn fyrir seinni leikinn og þar vonumst við til að slípa liðið enn frekar saman,“ sagði Gunnar Magnússon aðstoðarlandsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

Eftir þessa tvo leiki gegn Barein heldur íslenska landsliðið til Noregs og tekur þar þátt í æfingamóti ásamt Noregi, Hollandi og Brasilíu. Landsliðið kemur heim frá Noregi 6. janúar og heldur svo til München miðvikudaginn 9. janúar. Fyrsti leikur Íslands á HM verður á móti Króatíu 11. janúar. Spánn verður mótherjinn 13. janúar, Barein 14. janúar, Japan 16. janúar og Makedónía 17. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert