„Réðum illa við Sagosen“

Guðmundur Guðmundsson í landsleik gegn Barein á dögunum.
Guðmundur Guðmundsson í landsleik gegn Barein á dögunum. mbl.is/Hari

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, sagði slæma byrjun íslenska liðsins í síðari hálfleik hafa gert því erfitt fyrir í vináttuleiknum í Noregi í dag. Norðmenn sigruðu 31:25. 

Leikurinn var sá fyrsti hjá Íslandi á fjögurra þjóða móti í Noregi sem er hluti af undirbúningi liðsins fyrir HM síðar í mánuðinum. 

Guðmundur segist hafa verið nokkuð sáttur við stöðuna að loknum fyrri hálfleik en þá var Noregur yfir 16:14. 

„Tveggja marka munur í hálfleik er ágætis hálfleikur í sjálfu sér gegn liði eins og því norska og á þeirra heimavelli. En við byrjuðum seinni hálfleikinn afskaplega illa. Þá náðu þeir fjögurra til fimm marka forskoti og gerðu það mjög fljótt. Á þeim kafla fengum við brottvísanir sem gerðu okkur erfitt fyrir,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is spjallaði við hann. 

„Þessi leikur var kaflaskiptur því við byrjuðum mjög vel. En eftir það lentum við í ákveðnum erfiðleikum í vörninni. Réðum til að mynda illa við Sander Sagosen. Okkur gekk illa á móti honum í stöðunni maður á móti manni og lentum gjarnan á eftir honum,“ benti Guðmundur á og nefndi einnig að íslensku landsliðsmennirnir hefðu getað nýtt færin sín betur. 

„Við gerðum mörg tæknimistök í leiknum og fórum illa með færin. Markmenn þeirra vörðu sautján skot í leiknum og hluta þeirra úr dauðafærum. Það reyndist dýrt,“ sagði Guðmundur en einnig er rætt við hann í umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert