„Eigum helling inni“

Bjarte Myrhol að skora gegn Íslendingum í gær.
Bjarte Myrhol að skora gegn Íslendingum í gær. Ljósmynd/handball.no

Norðmenn höfðu betur gegn Íslendingum þegar karlalandslið þjóðanna í handknattleik mættust á fjögurra liða móti í Noregi í gær.

Íslenska liðið undirbýr sig nú af krafti undir heimsmeistaramótið sem fram fer síðar í mánuðinum í Þýskalandi og Danmörku. Noregur sigraði 31:25 eftir að hafa verið yfir 16:14 að loknum fyrri hálfleik. Ísland mun einnig mæta Brasilíu og Hollandi í Noregi.

„Já ég fékk það nú,“ sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson þegar Morgunblaðið hafði samband við hann að leiknum loknum og spurði hvort hann hefði fengið svör við spurningum sem leita á hann og aðstoðarþjálfarana þessa dagana.

Guðmundur sagði íslenska liðið eiga töluvert inni miðað við þessa frammistöðu og færði fyrir því rök. „Ég sagði við mína leikmenn eftir þennan leik að við eigum helling inni. Í raun var þetta ekkert sérstaklega góður leikur af okkar hálfu. Reyndir menn áttu sem dæmi ekki góðan dag,“ sagði Guðmundur og benti einnig á að íslenska liðið hefði farið illa með mörg dauðafæri í leiknum. Þegar horft væri til þess gæti lið eins og Noregur verið fljótt að ná sex marka forskoti eins og niðurstaðan varð. „Þeir eru með frábært lið og voru á sínum heimavelli. Þetta var því ekki einfalt verkefni fyrir okkur.“

Ýmsar hremmingar

Ekki verður sagt að undirbúningur landsliðsins hafi gengið eins og í draumi hingað til því skakkaföllin hafa verið nokkur. Hægri hornamaðurinn Sigvaldi Guðjónsson er meiddur og mun ekki taka þátt í leikjunum í Noregi. Þá er Stefán Rafn Sigurmannsson með flensu. Guðmundur sagði batann hafa verið aðeins hægari hjá Stefáni en vonast var eftir. Fyrir vikið kallaði hann á hornamennina Óðin Þór Ríkharðsson og Bjarka Má Elísson.

„Bjarki kemur á morgun (í dag) en hann var svo vinsamlegur að koma og aðstoða okkur. Það gengur ekki að Guðjón Valur (Sigurðsson) og Arnór (Þór Gunnarsson) spili alla þrjá leikina í hornunum rétt fyrir HM. Þeir þurfa að fá einhverja hvíld. Við höfum lent í ýmsum hremmingum og erum án Arnars Freys Arnarssonar eins og er. En ég veit hvar ég hef Arnar og hann hefur spilað vel í vetur. Fyrir vikið erum við með línumenn sem hafa tiltölulega litla reynslu.“

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert