Patrekur hafði betur gegn Aroni

Robert Weber skýtur að marki Bareins í kvöld.
Robert Weber skýtur að marki Bareins í kvöld. Ljósmynd/@handballaustria

Austurríska karlalandsliðið í handbolta hafði betur gegn Barein er liðin mættust í æfingaleik í Innsbruck í dag. Lokatölur urðu 31:22 en staðan í hálfleik var 17:12, Austurríki í vil. 

Patrekur Jóhannesson þjálfar austurríska liðið og Aron Kristjánsson þjálfar Barein. Báðar þjóðir undirbúa sig nú af krafti fyrir heimsmeistaramótið í Þýskalandi og Danmörku sem hefst síðar í mánuðinum. 

Austurríki mætir Grikklandi á sunnudag í síðasta leik liðsins fyrir heimsmeistaramótið og Barein mætir sama andstæðingi á morgun. 

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í japanska landsliðinu voru hársbreidd frá því að leggja Sviss að velli í vináttuleik, en urðu að sætta sig við 28:28-jafntefli í Winterthur. Japan var með 28:26-forystu þegar skammt var eftir en Sviss skoraði tvö síðustu mörkin. 

Japan mætir Túnis á morgun og Portúgal á sunnudag í síðustu tveimur leikjum liðsins fyrir heimsmeistaramótið. Japan og Barein eru bæði með Íslandi í B-riðli heimsmeistaramótsins en Austurríki er í C-riðli með Síle, Danmörku, Noregi, Sádi-Arabíu og Túnis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert