Björgvin hrökk í gang gegn Hollandi

Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik á milli stanganna og …
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik á milli stanganna og varði 11 skot. mbl.is//Hari

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann fjögurra marka sigur gegn Erlingi Richardssyni og lærisveinum hans í hollenska landsliðinu í Gjensidige-bikarnum í Nordstrand Arena í Ósló í Noregi í dag, 27:23. 

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með og skiptust liðin á að halda forystunni. Holland leiddi með níu mörkum gegn átta á fimmtándu mínútu en þá náði íslenska liðið góðum leikkafla og komst í 14:11 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hollenska liðinu tókst að minnka muninn í tvö mörk á lokamínútunum og staðan 14:12 í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og var munurinn á liðunum orðinn fjögur mörk þegar 35 mínútur voru liðnar af leiknum. Hollenska liðinu tókst að minnka þann mun niður í eitt mark þegar kortér var til leiksloka en þá steig íslenska liðið aftur á bensíngjöfina og náði mest fimm marka forskoti, 27:22. Hollendingar löguðu stöðuna á síðustu mínútum leiksins og niðurstaðan 27:23-sigur íslenska liðsins.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í íslenska liðinu með 7 mörk, þar af fimm af vítalínunni, og Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum. Óðinn Þór Ríkarðsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu þrjú mörk hvor. Þá varði Björgvin Páll Gústafsson 11 skot, þar af eitt vítakast, en þetta var lokaleikur íslenska liðsins fyrir heimsmeistaramótið í Danmörku og Þýskalandi sem hefst 10. janúar.

Ísland 27:23 Holland opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með fjögurra marka sigri íslenska liðsins, 27:23.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert