Markvarslan áhyggjuefni

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik lauk undirbúningi sínum fyrir heimsmeistaramótið með sigri gegn Hollendingum, 27:23, í síðasta leik sínum á fjögurra þjóða mótinu í Noregi í gær.

Íslendingar voru skrefinu á undan lærisveinum Erlings Richardssonar nær allan tímann en gekk þó frekar illa að hrista þá almennilega af sér. Varnarleikurinn var frekar slakur af hálfu íslenska liðsins í fyrri hálfleik og Björgvin Gústavsson varði lítið, en bæði hann og vörnin löguðust til muna í síðari hálfleik. Ljóst er þó eftir leiki Íslands á mótinu í Noregi að ýmislegt þarf að laga í íslenska liðinu áður en það mætir Króötum í fyrsta leik sínum á HM í München á föstudaginn. Markvarslan hefur verið slök, bæði í leikjunum í Noregi og í leikjunum á móti Barein í Laugardalhöllinni á dögunum en Björgvin Páll sýndi þó ágæta takta í seinni hálfleiknum í gær. Arnór Þór Gunnarsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu í gær með sjö mörk, þar af fimm af vítalínunni, og Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk.

Varnarleikurinn hefur verið nokkuð góður

„Þetta var kaflaskiptur leikur. Varnarleikurinn hjá okkur var ekkert sérstaklega góður fyrstu 15 mínúturnar en við bættum hann mikið eftir það. Seinni hálfleikurinn var að megninu til í lagi og þegar á heildina er litið hefur varnarleikurinn verið nokkuð góður hjá okkur. Markvarslan var betri en hún hefur verið í síðustu leikjum og sóknarleikurinn var allt í lagi en við hefðum hæglega getað skorað yfir 30 mörk ef færanýtingin hefði verið betri,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn gegn Hollendingum.

„Við spiluðum á mjög ungu liði í síðari hálfleiknum og það er alveg ljóst að við erum með lið sem er á tímamótum. Við erum með nýtt lið sem er að stíga sín fyrstu skref,“ sagði Guðmundur Þórður.

Íslendingar höfnuðu í öðru sæti á mótinu á eftir Norðmönnum sem unnu alla þrjá leik sína en þeir höfðu betur gegn Brasilíumönnum í gær.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert