Framarar á tæpasta vaði gegn Haukum

Frá viðureign Hauka og Fram að Ásvöllum í kvöld.
Frá viðureign Hauka og Fram að Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Hari

Þórey Rósa Stefánsdóttir reyndist drjúg fyrir Framkonur þegar Haukar tóku á móti Safamýrarliðinu á Ásvöllum í kvöld í 11. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik en Þórey skoraði 10 mörk í 31:30-sigri Fram.

Mikið jafnfræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Haukar skoruðu fyrsta mark leiksins en Framkonur svöruðu strax og leiddu með einu marki, nánast allan fyrri hálfleikinn, allt þangað til á 20. mínútu. Þá varð það hlutskipti Hafnfirðinga að leiða leikinn en Fram var aldrei langt undan og Þórey Rósa skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og jafnaði leikinn í 15:15 á lokamínútum hálfleiksins.

Framkonur mættu mun sterkari til leiks í síðari hálfleik og skoruðu þrjú fyrstu mörk hálfleiksins. Haukakonur komu til baka og tókst að minnka muninn í eitt mark en alltaf tókst Fram að sigla fram úr og var munurinn á liðunum þrjú mörk þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Framkonur náðu þá fjögurra mark forskoti og virtist alltaf stefna í sigur Framara þegar Haukastúlkum tókst óvænt að jafna metin. Þegar rúm mínúta var til leiksloka var munurinn á liðunum þrjú mörk. Haukar skoruðu tvívegis með stuttu millibili en Framkonur náðu að halda út og unnu að lokum eins marks sigur.

Þórey Rósa var sem fyrr atkvæðamest í liði Fram með 10 mörk og Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði 9 mörk, þar af þrjú af vítalínunni. Hjá Haukum var Berta Rut Harðardóttir markahæst með 8 mörk, þar af 4 af vítalínunni, og Karen Helga Díönudóttir skoraði 7 mörk. Heiðrún Dís Magnúsdóttir varði 16 skot í marki Fram og átti góðan leik en hjá Haukum varði Saga Sif Gísladóttir 10 skot.

Haukakonur eru áfram í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig, þremur stigum minna en Fram og ÍBV, en Framkonur eru komnar í annað sæti deildarinnar í 15 stig og eru nú einungis tveimur stigum frá toppliði Vals.

Haukar 30:31 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með eins marks sigri Fram í hörkuleik, 31:30.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert