Íslendingaslagur í undanúrslitum

Alfreð Gíslason er sigursæll og getur kvatt Kiel með titli.
Alfreð Gíslason er sigursæll og getur kvatt Kiel með titli. AFP

Í dag var dregið í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Tvö Íslendingalið voru í hattinum og drógust þau saman.

Kiel, sem Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur með og Alfreð Gíslason þjálfar, mætir Füchse Berlín sem Bjarki Már Elísson leikur með. Bjarki og félagar slógu ríkjandi meistara út í síðustu umferð, Íslendingaliðið Rhein-Neckar Löwen. Í hinni viðureigninni í undanúrslitum mætast svo Hannover-Burgdorf og Magdeburg.

Á þessu stigi bikarkeppninnar verður um að ræða úrslitahelgi þar sem leikið er eftir svokölluðu Final4-fyrirkomulagi. Undanúrslitaleikirnir fara fram 6. apríl og daginn eftir mætast sigurliðin í úrslitum.

Kiel hefur unnið bikarinn oftast allra liða eða tíu sinnum, þar af fimm sinnum síðan Alfreð Gíslason tók við fyrir rúmum áratug. Hann mun hætta með liðið að loknu yfirstandandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert