Valur sterkari í einvígi efstu liðanna

Lovísa Thompson sækir að vörn ÍBV í kvöld.
Lovísa Thompson sækir að vörn ÍBV í kvöld. mbl.is/Hari

Valur hafði betur gegn ÍBV, 23:16, er liðin mættust í toppslag Olísdeildar kvenna í handbolta í kvöld. Með sigrinum náði Valur tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar, en fyrir leik voru bæði lið með 15 stig. 

Valskonur náðu fljótt undirtökunum og eftir tíu mínútur var staðan orðin 7:3. Sóknarleikur Vals gekk afar vel framan af leik, á meðan varnarleikurinn og Íris Björk Símonardóttir reyndust sókn ÍBV-liðsins erfið.

Staðan var orðin 13:5 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, en ÍBV skoraði ekki í 15 mínútur um miðbik hálfleiksins. Eyjakonur voru hins vegar betri undir lok hálfleiksins og minnkuðu muninn í 13:8 og þannig var staðan í hálfleik. Valur skoraði aðeins eitt mark síðustu 13 mínútur hálfleiksins.

ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn betur og skoraði fyrstu þrjú mörk hans og minnkaði muninn í tvö mörk, 13:11. Þá skoruðu Valskonur loks og var staðan 15:12 þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. 

Valskonur áttu þá góðan kafla og náðu sex marka forystu, 18:12. ÍBV var ekki líklegt til að jafna leikinn eftir það og góður sigur Vals varð raunin. 

Valur 23:16 ÍBV opna loka
60. mín. Darija Zecevic (ÍBV) ver víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert