Stórlið í Evrópu berjast um Hauk

Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Allir ...
Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Allir eru þeir nú að taka þátt í stórmóti í fyrsta sinn með A-landsliðinu, Elvar 21 árs, Haukur 17 ára og Gísli Þorgeir 19. mbl.is/Hari

Haukur Þrastarson, hinn 17 ára gamli leikmaður Selfoss í handknattleik, er afar eftirsóttur af stórliðum um alla Evrópu. Haukur er með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu en er utan hóps í byrjun móts.

Fjölmiðlar í Póllandi greina frá því í dag að meistaralið Kielce þar í landi hafi mikinn áhuga á Hauki. Forseti félagsins staðfesti fregnirnar en segir þó að hálf Evrópa sé á eftir honum.

„Þetta er heitasti ungi bitinn á heimsmarkaðnum. Hann hefur ótrúlega hæfileika og getur náð alveg jafn langt og Aron Pálmarsson,“ sagði Bertus Servaas, forseti Kielce. Þá segist hann vita til þess að PSG, Kiel og Flensburg séu öll á eftir honum.

„Ég veit fyrir víst að þessi félög horfa til hans. Mig grunar samt að flest bestu liðin í Evrópu séu að fylgjast með honum. Það kæmi mér ekki á óvart, enda er hann frábært efni. Hann gæti orðið einn besti leikmaður heims,“ sagði forsetinn.

mbl.is