Sjö marka tap í Ólympíuhöllinni

Viran Morros reynir að stöðva Aron Pálmarsson í leiknum í …
Viran Morros reynir að stöðva Aron Pálmarsson í leiknum í dag. AFP

Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði fyrir spænska landsliðinu, 32:25, í annarri umferð B-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. Spánverjar voru yfir nær allan leikinn og má segja að þeir hafi nýtt sér öll mistök sem íslenska liðið gerði í leiknum, auk þess voru dómarar leiksins þeim fremur hliðhollir.

Fimm marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 19:14.

Þar með er ljóst að íslenska landsliðið verður að vinna þrjá síðustu leiki sína, gegn Barein á morgun og Japan og Makedóníu á miðvikudag og fimmtudag til þess að fara í milliriðlakeppni mótsins.

Spánverjar skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkum leiksins en íslenska liðið jafnaði metin eftir sjö mínútna leik, 3:3, ekki síst vegna frábærrar markvörslu Ágústs Elís Björgvinssonar sem byrjaði í marki íslenska liðsins að þessu sinni. Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi yfir í fyrsta sinn, 4:3. Það setti nokkurt strik í reikninginn að íslenska liðið fékk á sig þrjá brottrekstra á fyrstu 10 mínútum leiksins, flesta þeirra fyrir litlar sakir.

Áður en hálfleikurinn var úti höfðu Ólafur og Arnar Freyr Arnarsson, sem byrjuðu í hjarta varnarinnar, fengið tvo brottrekstra hvor hjá afar slökum dómurum leiksins,  Tékkunum Vaclav Horácek og Jiri Novotný. Þeir dæmdu ekki eins báðum megin vallarins auk þess sem þeir sýndu löngum sóknum spænska liðsins einstaka þolinmæði.

Spánverjar voru tveimur mörkum yfir, 8:6, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður og þremur mínútum síðar var munurinn kominn upp í þrjú mörk, 11:8. Þá tók Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari leikhlé. Mestur varð munurinn fimm mörk, 16:11, eftir 25 mínútna leik og hélst sá munur meira og minna allt til loka hálfleiksins þegar staðan var 19:14.

Spænska liðið refsaði því íslenska fyrir hver mistök sem það gerði.

Fjórar brottvísanir höfðu sín áhrif á leik íslenska liðsins í fyrri hálfleik, jafnt í vörn sem sókn. Ágúst byrjaði af krafti í markinu en tapaði síðan þræðinum og var skipt af leikvelli fyrir Björgvin Pál Gústavsson eftir 18 mínútur. Björgvin fann sig heldur ekki í fyrri hálfleik.

Sóknarleikurinn var sem fyrr borinn uppi af Aroni Pálmarssyni.

Ísland skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og virtist liðið vera að komast inn í leikinn þegar röðin kom að Daníeli Þór Ingasyni að fá brottrekstur hjá Tékkunum. Engu að síður átti íslenska liðið möguleika á að minnka muninn í tvö mörk, 19:17, en skot Ólafs Guðmundssonar var varið. Munurinn fór á ný upp í fimm mörk, 21:16, en íslenska liðið kom til baka með þremur mörkum, 21:18. Þá var Teitur Örn rekinn af leikvelli fyrir engar sakir og fyrr en varði var munurinn orðinn fimm mörk enn og aftur, 24:19, og síðan 25:19 eftir tvær slæmar sóknir íslenska liðsins í röð, þegar það var manni fleira, aldrei slíku vant.

Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var munurinn enn sex mörk, 27:21. En íslenska liðið beit heldur betur frá sér. Gísli Þorgeir Kristjánsson kom inn fyrir miðjan hálfleikinn og kom róti á spænsku vörnina með hraða sínum. Um skeið voru hann, Teitur Örn og Elvar Örn í þriggja manna útilínunni, meðalaldurinn var 20 ára.

Munurinn komst niður í þrjú mörk, 27:24, með þremur íslenskum mörkum í röð og möguleiki var á að minnka muninn í tvö mörk en Sigvaldi Guðjónsson náði ekki að grípa sendingu sem kom fram völlinn. Nær komst íslenska liðið ekki. Áhlaupi þess var hrundið og Spánverjar unnu annan sigur sinn á mótinu en íslenska liðið er áfram án sigurs en getur bætt þar úr á morgun gegn Barein.

Spánn 32:25 Ísland opna loka
60. mín. Spánn tekur leikhlé 22 sekúndur eftir. Spánverjar vilja enda þetta með marki og koma muninum í sjö mörk.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert