Spánverjar voru einfaldlega betri

Teitur Örn Einarsson tekur á Daniel Sarmiento Melian, leikmanni spænska …
Teitur Örn Einarsson tekur á Daniel Sarmiento Melian, leikmanni spænska landsliðsins, í leiknum í kvöld. AFP

„Spánverjar spiluðu vel og mér fannst vörnin okkar nógu góð enda þurftum við oft að standa í vörn í hálfa aðra mínútu áður en þeir skutu á markið. Það er hrikalega erfitt,“ sagði Teitur Örn Einarsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir tapið fyrir Spánverjum á HM í handknattleik í München í kvöld, 32:25.

Teitur Örn lék meirihluta leiksins og skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik á stórmóti. „Það tekur rosalega á að standa lengi í vörn og fá síðan mark á sig. Þess utan þá refsuðu Spánverjar okkur fyrir hver einustu mistök. Ég veit ekki hvað mörg mistök við gerðum og misstum boltann á einfaldan hátt,“ sagði Teitur Örn sem var vonsvikinn með úrslitin eins og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins sem töldu of mikinn mun hafa verið á liðunum þegar upp var staðið.

Teitur Örn vildi ekki gera of mikið út hlutverki dómaranna sem þóttu síst vera á bandi íslenska liðsins. „Það er sjaldan hægt að kenna dómurunum um tap í handboltaleik. Að þessu sinni voru Spánverjar sterkari og klókari en við og þess vegna unnu þeir leikinn,“ sagði Teitur ákveðinn.

Teitur sagðist vera ánægður með að hafa fengið tækifæri í leiknum. „Það er heiður að fá að leika fyrir sína þjóð. Þess vegna lagði ég mig eins mikið fram og ég gat,“ sagði Teitur Örn Einarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert