Erfitt að fá ekki mat hjá mömmu á hverjum degi

Sandra Erlingsdóttir í leik með Val gegn HK.
Sandra Erlingsdóttir í leik með Val gegn HK. mbl.is/Hari

Sandra Erlingsdóttir átti frábæran leik fyrir Val gegn sínum gömlu liðsfélögum í ÍBV þegar liðin mættust í toppslag 11. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í síðustu viku.

Sandra var markahæst í liði Vals með sex mörk en Sandra gekk til liðs við Val frá ÍBV, síðasta sumar. Valskonur sitja á toppi deildarinnar með 17 stig og hafa tveggja stiga forskot á ÍBV og Fram sem eru í 2.-3. sæti deildarinnar með 15 stig.

„Ég er mjög ánægð með þann stað sem liðið er á í dag. Við erum búnar að vera spila mjög vel og höfum verið að finna taktinn, hægt og rólega, í undanförnum leikjum. Við vorum aðeins að hiksta, sóknarlega, í upphafi tímabilsins en að sama skapi hefur varnarleikurinn alltaf verið öflugur. Íris hefur svo varið mjög vel þannig að það mætti kannski segja að varnarleikur og markvarsla hafi haldið okkur á floti, fyrstu mánuðina. Sóknarleikurinn hefur svo verið að koma hægt og rólega og við erum byrjaðar að finna hver aðra mun betur en við gerðum í fyrstu leikjunum.“

Sandra gekk til liðs við Val síðasta sumar eftir tvö ár með ÍBV í Vestmannaeyjum. Hún viðurkennir að það hafi verið erfitt að flytja út frá mömmu og pabba en hún er fædd árið 1998.

Stórt skref að stíga

„Það var stórt skref fyrir mig að flytja frá Vestmannaeyjum og flytja út frá mömmu og pabba. Þess vegna var ég ekki að stressa mig of mikið á því að fyrstu leikirnir hjá mér hafi kannski ekki gengið alveg jafn vel og ég hefði viljað. Ég þurfti aðeins að venjast því að fá ekki mömmumat á hverjum degi en þetta er allt að koma og mér leið eins og ég væri að ganga inn í ÍBV-heimilið, þegar að ég mætti fyrst í Valsheimilið, því mér hefur verið tekið mjög vel hjá félaginu. Ég þekkti vel til nokkurra stelpnanna í Valsliðinu áður en ég skrifaði undir á Hlíðarenda og þótt við séum flestar á mismunandi aldri náum við mjög vel saman og mórallinn í liðinu er frábær.“

Sandra telur að Valskonur séu með lið til þess að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í vor.

„Það var alltaf vitað mál að það myndi taka smá tíma fyrir mig að komast inn í nýtt lið en ég er að finna mig betur og betur. Ég er sátt með mína spilamennsku til þessa og ef við höldum áfram á sömu braut tel ég okkur vel í stakk búnar til þess að berjast um Íslandsmeistartitilinn.

Sjá allt viðtalið við Söndru og úrvalslið 11. umferðar í Olís-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert