Fram jafnaði Val á toppnum

Steinunn Björnsdóttir var markahæst hjá Fram.
Steinunn Björnsdóttir var markahæst hjá Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Fram jöfnuðu topplið Vals að stigum í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld eftir sigur á nýliðum HK á heimavelli, 31:22.

Fram byggði upp þriggja marka forystu snemma í fyrri hálfleik áður en HK kom til baka, jafnaði leikinn og jók spennuna. Þegar flautað var til hálfleiks var Fram með tveggja marka forystu 11:9. Meðbyrinn var með fram eftir hlé og eftir að hafa breytt stöðunni úr 14:13 í 20:13 var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Fram hamraði járnið meðan heitt var og fór að lokum með níu marka sigur af hólmi, lokatölur 31:22.

Steinunn Björnsdóttir skoraði sex mörk og var markahæst hjá Fram, sem er nú með 17 stig á toppnum eins og Valur. Valur á þó leik til góða gegn Selfossi á föstudag. HK er í sjöunda og næstneðsta sæti með sjö stig, en Elva Arinbjarnar var markahæst með sex mörk.

Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Ragnheiður Júlíusdóttir 5, Harpa María Friðgeirsdóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 4, Hildur Þorgeirsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1.

Mörk HK: Elva Arinbjarnar 6, Berglind Þorsteinsdóttir 4, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Þórunn Friðriksdóttir 3, Helena Ósk Kristjánsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Díana Kristín Sigmarsdóttir 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert