Sigur var ekki sjálfgefinn

Ólafur Andrés Guðmundsson hefur staðið í ströngu með íslenska landsliðinu …
Ólafur Andrés Guðmundsson hefur staðið í ströngu með íslenska landsliðinu á HM. AFP

„Við gerðum okkur grein fyrir því fyrir leikinn að hann yrði erfiður. Japanir hafa leikið flottan handbolta á þessu móti og eru vel þjálfaðir og með gott skipulag,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson sem skoraði þrjú mörk í sigurleik Íslands á Japan, 25:21, á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í dag.

„Við lékum alls ekki okkar besta handbolta en héldum áfram að reyna allt til leiksloka og það skilaði sér í sigri þegar upp var staðið. Það var mikilvægast,“ sagði Ólafur sem viðkenndi að sóknarleikurinn hefði ekki verið nægilega góður, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þá hafi menn skotið of snemma, ekki valið bestu færin og farið út úr skipulaginu. „Það var ekki gott. En við héldum áfram,“ sagði Ólafur sem taldi íslenskan sigur ekki hafa verið sjálfgefinn fyrir fram.

Fram undan er úrslitaleikur við Makedóníu á morgun klukkan 18 um sæti í milliriðlakeppninni. „Ég er strax farinn að huga að þeim leik. Næst er ná sér eftir leikinn í dag og ná upp ferskleika fyrir morgundaginn. Við byrjum strax í kvöld að búa okkur undir leikinn við Makedóníu.  Úrslitaleikir er það skemmtilegasta sem maður upplifir í boltanum. Ég reikna með hörkuleik og er þegar orðinn spenntur,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson landsliðsmaður í samtali við mbl.is í Ólympíuhöllinni í München fyrir stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert