Erum á réttri leið

Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar.
Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Hari

„Við spiluðum stórkostlegan varnarleik en við vorum í ákveðnum vandræðum í sóknarleiknum enda eru þær með frábæra vörn og frábæran markmann,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 19:16-tap liðsins gegn Val í 13. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við héldum Valsliðinu í 19 mörkum sem er frábært. Þær prófuðu allar útfærslur í sóknarleiknum og ég er virkilega ánægður með vinnuframlag stelpnanna í þessum leik. Ég hefði viljað sjá okkur nýta hraðaupphlaupin okkar betur en því miður þá fengum við ekki opnanirnar sem við vorum að leita að í sóknarleiknum. Þær spiluðu nánast með tærnar á sex metra línunni og það var erfitt. Við náðum ekki að opna línuna né hornin en það má ekki gleyma því að Valur er með eina bestu vörnina í deildinni.“

Stjarnan er í sjötta sæti deildarinnar með 9 stig en Basti er sáttur með þann stað sem liðið er á í dag.

„Við erum á réttri leið. Þetta var fyrsti tapleikurinn okkar síðan í nóvember og við megum vera svekktir að hafa ekki gert betur í dag gegn frábæru liði. Ég hef sagt það áður að Valur, Fram og Haukar eru í sérflokki í þessari deild og við hin þurfum bara að elta þessi lið eins og staðan er í dag,“ sagði Sebastian Alexandersson í samtali við mbl.is.

mbl.is