Haukar upp í þriðja sæti eftir stórsigur

Olgica Andrijasevic varði 19 skot í marki KA/Þórs.
Olgica Andrijasevic varði 19 skot í marki KA/Þórs. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Haukar eru komnir upp í þriðja sæti Olísdeildar kvenna í handbolta eftir afar sannfærandi 35:21-sigur á Selfossi á heimavelli sínum í kvöld. Haukar byrjuðu betur og komust í 9:5, en Selfoss jafnaði í 9:9. 

Þá náðu Haukar aftur góðum kafla og komust í 15:12, sem var staðan í hálfleik. Haukarnir voru mikið sterkari í síðari hálfleik og var sigurinn ekki í hættu. Maria Pereira skoraði níu mörk fyrir Hauka og Ramune Pekarskyte sex. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði sex mörk fyrir Selfoss. 

Haukar eru nú með 15 stig, einu stigi meira en ÍBV sem var í þriðja fyrir leik kvöldsins. Selfoss er á botninum með aðeins fjögur stig. 

KA/Þór hafði betur gegn HK í nýliðaslag á Akureyri, 19:17. KA/Þór var skrefinu á undan allan leikinn og staðan í hálfleik var 11:8. KA/Þór tókst ekki að slíta sér frá HK í síðari hálfleik, en gestirnir náðu hins vegar aldrei að jafna. 

Katrín Vilhjálmsdóttir var markahæst hjá KA/Þór með sjö mörk og Sólveig Lára Kristjánsdóttir skoraði fjögur. Olgica Andrijasevic varði 19 skot í markinu. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði átta mörk fyrir HK. KA/Þór er í fimmta sæti með 13 stig og HK í sjöunda sæti með sjö stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert