Allir hefðu getað gert betur

Nafnarnir Ólafur Guðmundsson (13) og Ólafur Gústafsson verjast Haniel Langaro, ...
Nafnarnir Ólafur Guðmundsson (13) og Ólafur Gústafsson verjast Haniel Langaro, leikmanni landsliðs Brasilíu, í leiknum í dag. AFP

„Við gerðum okkur mjög erfitt fyrir strax í upphafi þegar við lentum fimm mörkum undir og eftir það vorum við nánast að elta til leiksloka,“ sagði Ólafur Gústafsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, eftir þriggja marka tap, 32:29, fyrir Brasilíu í lokaleik liðsins á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í dag.

„Undir lok fyrri hálfleiks vorum við komnir inn í leikinn en síðan fórum við illa að ráði okkar allir saman í upphafi síðari hálfleiks. Þegar flestir leika undir getu þá er erfitt að vinna svona leik,“ sagði Ólafur sem þótti ekkert eitt hafa brugðist umfram annað hjá íslenska liðinu í dag. 

„Allir hefðu getað gert betur. Þegar litið er yfir mótið og þátttöku okkar þá var margt jákvætt. Við unnum þrjá leiki, tvo gegn liðum sem búist var fyrir fram við að við ynnum, síðan einn „fiftí fiftí“ leikur sem vannst.  Okkur tókst að standa í Þjóðverjum framan af og síðan fór upphafskaflinn gegn Frökkum algjörlega með þá viðureign. Okkur er óhætt að horfa jákvæðum augum á framhaldið,“ sagði Ólafur Gústafsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik sem hafnaði í 11. sæti á HM að þessu sinni.

mbl.is