Með hugarfar sigurvegara að vopni

Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. AFP

Danska stórskyttan Mikkel Hansen var ekki búinn að vera lengi á stóra sviðinu þegar hann sagðist ætla að verða bestur í heimi.

Óhætt er að segja að hann sé búinn að ná því markmiði, eftir að hafa áður verið talinn í hópi þeirra bestu. Ef einhver er í vafa ætti að vera nóg að skoða frammistöðu Hansen á nýafstöðnu heimsmeistaramóti, hvar Danir fögnuðu sínum fyrsta heimsmeistaratitli, til þess að snúast hugur.

Hansen er sannarlega á hátindi ferilsins, nú 31 árs gamall. Hann afrekaði það á HM að verða fyrsti leikmaðurinn í 45 ár sem verður heimsmeistari og markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins. Hansen, sem skoraði 72 mörk í 10 leikjum með Dönum á mótinu, bræddi svo hjörtu landa sinna þegar hann upplýsti eftir mótið að hafa fengið leyfi til þess að fara heim til fjölskyldunnar milli leikja. Sonur hans, Eddie Max, kom í heiminn aðeins fimm dögum fyrir fyrsta leik Dana á HM og fagnaði heimsmeistaratitlinum fyrir framan þúsundir í fangi föður síns á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn.

Þrátt fyrir að hafa alltaf haft trú á sjálfum sér og stefnt að því að verða bestur var fátt sem benti til þess snemma á hans ferli. Hann var snarpur en þó yfirleitt minnstur á æfingum í yngri flokkum í heimabæ sínum, Helsingør. Hann gat ekkert gert í því að vera lágvaxinn, en nýtti sér það vel með því að einbeita sér að því að öðlast betri leikskilning og yfirsýn á vellinum. Það kom honum vel þegar líkamlegur þroski sagði til sín og á stóran þátt í því að gera Hansen, sem er svo þekktur fyrir sítt hár sitt og höfuðband, að þeim alhliða leikmanni sem hann er í dag.

Sjá alla umfjöllunina um Hansen í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert