Auðvitað svolítið skrítið

Sverre Jakobsson er orðinn aðstoðarþjálfari KA.
Sverre Jakobsson er orðinn aðstoðarþjálfari KA. Ljósmynd/KA

„Auðvitað er þetta að einhverju leyti svolítið skrítið, að vera kominn á hinn staðinn í bænum svona á miðju tímabili,“ sagði Sverre Jakobsson í samtali við Morgunblaðið, en hann hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari KA í Olísdeild karla í handknattleik.

Hann færir sig því um set á Akureyri eftir að hafa verið þjálfari Akureyrar Handboltafélags síðastliðin ár, en var óvænt rekinn þaðan rétt fyrir áramót.

Sverre hafði stýrt Akureyri til sigurs í næstefstu deild í fyrra og undir hans stjórn voru nýliðarnir í 10. sæti Olís-deildarinnar þegar haldið var í vetrarfrí. Það var svo hinn 28. desember að tilkynnt var að Sverre hefði látið af störfum hjá félaginu. Tímasetningin vakti ekki síður athygli, en síðasti leikur liðsins var hinn 16. desember og sá næsti ekki fyrr en nú í byrjun febrúar.

„Þetta kom mér mjög á óvart og þetta var alls ekki minn vilji. Ég hefði viljað halda áfram enda tel ég að liðið hafi verið á góðri leið. Ég ber samt virðingu fyrir ákvörðuninni, menn hafa alveg rétt á því að láta mig fara. Ég fer ekki neitt voðalega glaður, en verð að sætta mig við niðurstöðuna. Ef menn telja að þörf sé á breytingum þá eiga þeir bara rétt á því, en ég er að sjálfsögðu ekki sammála því og hefði viljað halda áfram,“ sagði Sverre, sem er uppalinn í KA og forráðamenn félagsins voru fljótir að hafa samband þegar fregnirnar bárust frá Akureyri.

Þakklátur KA-mönnum

„KA-menn höfðu samband við mig daginn eftir að þetta fréttist og mér þykir mjög vænt um það, enda bar þeim engin skylda til þess. Þeir vildu skoða hvað ég ætlaði að gera og hvort ég hefði áhuga á að koma til starfa hjá félaginu á einhvern hátt. Ég ákvað fyrst að anda aðeins og vinna í mínum málum, en þegar á leið átti ég fund með þjálfurum KA um hvort ég gæti aðstoðað í leikjum og á æfingum og slíkt. Mér leist mjög vel á það, ég verð á bekknum í fyrsta leik og reyni að aðstoða eins vel og ég get,“ sagði Sverre.

Sjá allt viðtalið við Sverre í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert