Sigurbergur og Theodór ekki meira með?

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ekki nógu sáttur með stigið sem hans menn fengu gegn ÍR, þá aðallega vegna þess að Eyjamenn leiddu leikinn með tveimur mörkum þegar tæp mínúta var eftir. Skelfileg lokamínúta liðsins gerði þó það að verkum að liðin skiptu stigunum á milli sín í Eyjum, í kvöld.

„Það er svekkjandi að ná ekki að vinna þetta úr því sem komið var, þó svo að við höfum verið að elta eftir fyrstu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik og ÍR var með forystuna. Við komum okkur inn í leikinn í síðari hálfleiknum og náum tvisvar tveggja marka forystu í seinni hálfleiknum sem við missum niður, það er svekkjandi. Samt sem áður var frábær karakter í liðinu að koma til baka í seinni hálfleiknum, varnarleikurinn var frábær, það er eitthvað sem við höfum haft áhyggjur af í vetur. Nú náðum við að halda andstæðingnum í 24 mörkum sem er mjög gott, barátta, vinnusemi og karakter voru til fyrirmyndar. Þetta er eitt stig í hús og það má ekki gleyma því að það telur.“

Það eru einungis sex leikmenn sem skora mörk ÍBV í kvöld, er það eitthvað sem Eyjamenn þurfa að hafa áhyggjur af?

„Við skiptum ekki mikið og markaskorið dreifðist á þá sem voru í sókninni, þessir sex sem spiluðu mestallt voru að skora, Elliði kom inn á í fyrri hálfleiknum til að leysa af og hann skilaði sendingu á Hákon í dauðafæri. Við kreistum ágætlega út úr því en við erum í smá hrókeringum.“

Theodór Sigurbjörnsson.
Theodór Sigurbjörnsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Tveir lykilmenn ÍBV, í raun tveir bestu menn liðsins, þeir Theodór Sigurbjörnsson og Sigurbergur Sveinsson, voru ekki með vegna meiðsla. Erlingur segir að líklega muni þeir ekki spila meira á þessari leiktíð.

„Það er eiginlega mjög langt í þá báða, það er bara spurning hvort það verði eitthvað á þessu tímabili eða ekkert. Það þýðir ekkert að vera að velta því upp og við höfum ekkert verið að því. Við erum ekkert að ræða mikið um það, enda er það hlutverk okkar þjálfaranna að vinna úr því sem við höfum og virkja fleiri. Það eru þessir sex sem að spiluðu mest og kannski okkar að reyna að koma mönnum inn í hlutina.“

Við förum í alla leiki eins og Kolli sé með okkur

Fráfall Kolbeins Arons Arnarsonar hefur verið Eyjamönnum afar erfitt síðustu vikur og voru því miklar tilfinningar í leiknum í kvöld.

„Varðandi fráfall Kolla þá er liðið búið að vinna frábærlega úr því, strákarnir eiga hrós skilið fyrir það og einnig samfélagið allt. Við förum í alla leiki eins og Kolli sé með okkur, þannig hugsum við þetta. Við ætluðum að gera þetta fyrir hann og vissulega er það hluti af þessu að við viljum spila fyrir hann.“

Þegar þrettán sekúndur eru eftir af leiknum telja Eyjamenn sig vera búna að taka leikhlé, einu marki yfir, en flautan í húsinu heyrist eftir að Stephen Nielsen varði skot Fannars Friðgeirssonar og Eyjamenn fengu því ekkert leikhlé.

„Ég er ekki í neinni aðstöðu til að meta það og sé ekkert hvað gerist, það eru bara tímaverðirnir sem þurfa að skera úr um það, bróðir minn og fleiri,“ sagði Erlingur léttur.

ÍBV spilar frábæra vörn í seinni hálfleiknum allt fram að síðustu mínútu leiksins þar sem gestirnir skora tvö mörk, einhverjir héldu að sigurinn væri í höfn en það kom í bakið á Eyjamönnum að hafa ekki náð þriggja marka forystu, sem þeir hefðu getað gert nokkrum sinnum.

„Við vorum tvisvar komnir með tvö mörk og í staðinn fyrir að ná þriðja markinu þá ná þeir að jafna, eins og ég segi þá gerist það mjög hratt. Þetta er kannski smá reynsla, hvernig maður spilar úr þannig stöðu, hvenær maður tekur skot og hvenær ekki. Það er hluti af þessum leik, sem gerir hann skemmtilegan líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert