Reiknar ekki með því að spila meira í vetur

Theodór Sigurbjörnsson að skora fyrir ÍBV í leik gegn Selfossi.
Theodór Sigurbjörnsson að skora fyrir ÍBV í leik gegn Selfossi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Theodór Sigurbjörnsson, hornamaðurinn snjalli í liði Íslands- og bikarmeistara ÍBV í handknattleik, spilar væntanlega ekkert meira með Eyjamönnum á tímabilinu vegna meiðsla.

„Ég er með eitthvert vesen í brjóski í bakinu og þetta hefur verið að angra mig síðan í nóvember. Síðasti kosturinn er að fara í aðgerð en ég mun byrja á því að fara í endurhæfingu sem mun taka dágóðan tíma. Eftir þær fréttir sem ég fékk hjá lækninum í gær þá má reikna því að ég spili ekkert meira með í vetur.

Ef ég fer of snemma af stað þá myndi ég bara fá það í hausinn síðar meir. Ég verð bara að taka þann tíma sem það tekur að fá sig góðan af þessu og læknirinn sagði að það tæki að minnsta kosti þrjá mánuði,“ sagði Theodór í samtali við mbl.is.

Theodór hefur verið albesti hægri hornamaður landsins undanfarin ár og hefur sallað inn mörkum fyrir Eyjamenn úr öllum regnbogans litum. Hann er markhæsti leikmaður ÍBV í Olís-deildinni á tímabilinu með 70 mörk og það verður mikil blóðtaka fyrir meistarana að spila án hans það sem eftir lifir tímabilsins.

Eins og fram kom í viðtali við stórskyttuna Sigurberg Sveinsson á mbl.is fyrr í dag er hann einnig á sjúkralistanum. Sigurbergur gekkst undir aðgerð á ökkla í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert