Skotin rötuðu rétta leið í sjávarloftinu

Díana Dögg Magnúsdóttir í leiknum gegn ÍBV.
Díana Dögg Magnúsdóttir í leiknum gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús

Díana Dögg Magnúsdóttir kunni vel við sig í sjávarloftinu á bernskuslóðunum í Vestamannaeyjum á mánudagskvöldið þegar hún kom þangað með samherjum sínum í handknattleiksliði Vals. Díana Dögg fór á kostum og skoraði m.a. 10 mörk í 13 marka sigri Vals, 29:16, sem hélt þar með efsta sæti Olís-deildar kvenna.

„Loksins hitti ég á leik þar sem skotin mín hittu markið. Því miður hefur svo ekki verið í nokkrum leikjum hjá mér á keppnistímabilinu,“ sagði Díana Dögg þegar slegið var á þráðinn til hennar í gær. „Auk þess er alltaf gott að koma heim og spila og hafa fjölskylduna á vellinum,“ sagði Díana Dögg og tók undir með blaðamanni að sjávarloftið væri ævinlega hressandi og endurnærandi.

Yfirburðir Valsliðsins í leiknum í Eyjum komu á óvart. Lið ÍBV er vel skipað auk þess að vera þekkt fyrir að vera erfitt heim að sækja. „Við áttum von á leikmönnum ÍBV kolbrjáluðum í leikinn. En okkur tókst að slá á stemninguna hjá þeim snemma leiks og ná góðu forskoti í upphafi. Varnarleikur okkar var frábær og sóknarleikurinn framúrskarandi. Við uppskárum eins og til var sáð,“ sagði Díana Dögg sem er 21 árs.

Batnar með hverjum leik

Díana Dögg segir Valsliðið hafa sótt jafnt og þétt í sig veðrið á leiktíðinni. Varnarleikurinn og markvarslan hafi verið góð nánast frá upphafi en sinn tíma hafi tekið að koma sóknarleiknum í réttan farveg. „Við spilum okkur sífellt betur saman eftir talsverðar breytingar á leikmannahópnum frá síðasta keppnistímabili. Það hefur tekið sinn tíma að spila liðið saman í sókninni en mér sýnist hann fara batnandi með hverjum leik,“ sagði Díana Dögg.

Nánar er rætt við Díönu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun og þar er birt úrvalslið Morgunblaðsins úr 15. umferð Olísdeildar kvenna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert