Gerðum ekkert af því sem við töluðum um

Leó Snær Pétursson er byrjaður að spila aftur eftir meiðsli.
Leó Snær Pétursson er byrjaður að spila aftur eftir meiðsli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var svipuð upplifun eins og á móti Val í síðasta leik. Við vorum með leik í hálfleik en mætum svo ekki til leiks í seinni hálfleik,“ sagði Leó Snær Pétursson, hornamaður Stjörnunnar, eftir 28:20-tap fyrir FH í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

Staðan í hálfleik var 11:10, FH í vil, en Stjörnumenn áttu ekki mikla möguleika í síðari hálfleik.

„Við töluðum um að mæta af krafti í seinni hálfleik en í staðinn mætum við ekki til leiks. Þetta var skrítin upplifun í seinni hálfleik. Við gerðum ekkert af því sem við töluðum um.“

Leó var að spila sinn fyrsta leik í um þrjá mánuði vegna meiðsla og var hann feginn að komast aftur inn á handboltavöllinn. 

„Það er svo langt síðan ég hef verið inni á vellinum vegna meiðsla svo þetta var dásamleg upplifun fyrir mig. Það var hins vegar leiðinlegt hvernig þeir keyrðu yfir okkur í seinni hálfleik.“

Stjarnan vann fimm leiki í röð fyrir áramót, en hefur nú tapað síðustu fjórum.

„Það er ömurleg afsökun að segja að við séum að missa menn í meiðsli en það er staðreynd. Við vitum vel að við getum þetta. Það er áfram gakk því við getum þetta. Við eigum helling inni. Við sýndum fyrir áramót hvað í okkur bjó. Við verðum að ná þeim krafti aftur upp. Ég hef engar áhyggjur,“ sagði Leó Snær. 

mbl.is