Ljótt atvik sem á ekki heima í handbolta

Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var að vonum kátur eftir 28:20-sigur sinna manna á Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Staðan í hálfleik var 11:10, FH í vil, en FH-ingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og unnu sannfærandi sigur. 

„Við héldum áfram að spila vörn og svo keyrðum við betur á þá en í fyrri hálfleik með seinni bylgjunni og líka hraðaupphlaupum á fyrsta tempói. Við vorum ekki að gera það nógu vel í fyrri hálfleiknum. Við sáum völlinn ekki nægilega vel fyrir framan okkur. Það breytist í seinni hálfleik og svo var vörnin góð í 60 mínútur.

Ég er mjög sáttur. Við vorum agaðir og héldum okkur algjörlega við þær vinnureglur sem við settum fyrir leikinn. Þeir eru með sterka leikmenn fyrir utan í Aroni Degi og Agli og með góðan línumann. Þeir eru klókir en við spiluðum virkilega vel á móti þeim,“ sagði Halldór um spilamennsku sinna manna. 

Jakob Martin Ásgeirsson fékk beint rautt spjald á 21. mínútu fyrir brot á Garðari Benedikt Sigurjónssyni á línunni. Garðar var ekki sáttur við Jakob og veittist að honum. Halldór kvartaði ekki mikið yfir dóminum. 

„Hann tók eitthvað aftan í hann. Mér finnst munur á milli leikja hvað er rautt spjald og hvað ekki. Ég fékk þessa sömu menn í bikarleik fyrir áramót og þá var verið að slátra okkar mönnum í hraðaupphlaupi og ekki var rautt spjald þá. Kannski lærðu þeir af þeim leik og sáu þetta þess vegna í þessu ljósi.“

Jóhann Birgir Ingvarsson, leikmaður FH, var á dögunum úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir mjög ljótt brot í leik FH og Gróttu. Halldór Jóhann skildi ákvörðun aganefndar. 

„Þetta var mjög ljótt atvik sem á ekki heima í handbolta. Hann veit það best sjálfur og hann sér eftir þessu. Þetta var algjört óviljaverk og við viljum fá svona atvik úr handboltanum og þá verður aganefndin að taka hart á þessu,“ sagði Halldór Jóhann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert