Ég var ekki sultuslakur

Guðlaugur Arnarsson og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfarar Vals.
Guðlaugur Arnarsson og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfarar Vals. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var kátur eftir 33:28-sigur sinna manna á ÍR í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Með sigrinum fór Valur aftur upp í toppsætið, en sigurinn var verðskuldaður. 

„Frammistaðan var góð. Ég er ánægður með mitt lið. Við berum mikla virðingu fyrir ÍR. Það er erfitt og krefjandi að spila á móti þeim. ÍR á að vera ofar í deildinni, sem er alls ekki gagnrýni. Við bjuggumst við erfiðum leik og ég er mjög ánægður með að klára þetta nokkuð sannfærandi,“ sagði Snorri í samtali við mbl.is eftir leik. 

Leikurinn var mjög skemmtilegur á að horfa og keyrðu bæði lið afar hratt hvort á annað við hvert tækifæri. 

„Það er almennt okkar leikur. Við gerum það oftast nær. ÍR spilar líka þannig og úr varð skemmtilegur leikur á að horfa. Það var hraði, kraftur og mikið skorað. Markmennirnir áttu ekki sína bestu leiki en heilt yfir er ég ánægður.“

Valsmenn voru yfir nánast allan leikinn, en ÍR náði að minnka muninn í tvö mörk um miðbik seinni hálfleiks. 

„Ég var ekki sultuslakur. Við duttum aðeins niður í sókninni og það var smá pressa á okkur. Danni og Einar voru ekki alveg að verja eins og við viljum. Við náðum að stoppa í götin og vinna þá bolta sem við þurftum á að halda á meðan margir voru að spila vel í sókninni.“

Snorri Steinn fékk tveggja mínútna brottvísun á bekknum í kvöld að er því virðist fyrir mjög litlar sakir. 

„Ég sagði að þeir væru búnir að vera í 15 sekúndur. Það verður að spyrja dómarana hvort þeim fannst það gróf framkoma,“ sagði Snorri Steinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert