„Helmingurinn af landsliðinu hérna inni á“

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var bara hörkuleikur og klúður hjá okkur í lokin að missa niður forskotið í stöðu þar sem við eigum að vera að stjórna og gefum þeim boltann. Selfyssingar nýttu sér það, þeir eru klókir og góðir á boltann enda er helmingurinn af landsliðinu hérna inni á,“ sagði Erlingur Richardson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir leikinn gegn Selfossi í kvöld.

ÍBV leiddi nánast allan tímann en Selfyssingar skoruðu síðustu þrjú mörkin í leiknum og sigruðu 30:28.

„Heilt yfir þá fannst mér varnarleikurinn hjá okkur góður lengst af, þó að við séum að fá á okkur fullt af mörkum. Þeir fundu línuna undir lok fyrri hálfleiks og náðu að opna okkur þar. Við náðum að loka á það í seinni hálfleiknum,“ bætti Erlingur við og hann var einnig ánægður með sína menn í sókninni.

„Það mæðir mikið á Degi [Arnarssyni] og Fannari [Friðgeirssyni] í sókninni, sérstaklega þegar Sigurbergur er ekki með. Við erum með unga stráka þarna og við þurfum líka bara að finna tíma fyrir þá og koma þeim inn í þetta. En Fannar var að gera mikið, byrja sóknirnar og byrja árásir og það tekur mikla orku. Kannski voru menn orðnir þreyttir í lokin, en heilt yfir fannst mér við vera að opna þá nokkuð vel og ná þeim skotum sem við vildum, en síðan vorum við að senda klaufalegar sendingar og tapa óþarfa boltum.“

Línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson fór mikinn í leiknum en hann var markahæstur Eyjamanna með 6 mörk, eins og Dagur og Fannar. „Kári er að mínu viti besti línumaðurinn á landinu og við erum aðeins farnir að finna hann,“ sagði Erlingur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert