Stefán og félagar í 16-liða úrslit

Stefán Rafn Sigurmannsson.
Stefán Rafn Sigurmannsson. Ljósmynd/pickhandball.hu

stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í ungverska meistaraliðinu Pick Szeged halda áfram að gera það gott í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Í gær vann Szeged slóvenska liðið Celje, 29:28, á útivelli.

Stefán Rafn skoraði fjögur mörk fyrir Szeged sem er í öðru sæti riðilsins með 17 stig og virðist eiga sæti í 16-liða úrslitum keppninnar víst. Paris SG er efst með 20 stig. Þýsku meistararnir í Flensburg eru í þriðja sæti með 10 stig eftir tap á útvelli í gær fyrir Zaporozhye frá Úkraínu, 28:26. Ekki hefur verið sami glæsibragurinn yfir leik Flensburg í Meistaradeildinni á keppnistímabilinu og í þýsku deildinni þar sem liðið hefur leikið 20 leiki og unnið þá alla.

Skjern, lið Björgvins Páls Gústavssonar landsliðsmarkvarðar og Tandra Más Konráðssonar, rekur lestina í B-riðli með sex stig en liðið tapaði í gær á útivelli fyrir Zagreb, 32:29.

Íslendingatríóið í sænska meistaraliðinu Kristianstad mátti þola naumt tap á heimavelli fyrir pólsku meisturunum, Vive Kielce, 34:33, á laugardagskvöld í A-riðli. Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Kristianstad og Teitur Örn Einarsson tvö. Kristianstad er neðst í riðlinum með fimm stig.

Aron Pálmarsson lék ekki með Barcelona þegar liðið tapaði, 29:26, fyrir Vardar í Skopje. Barcelona er efst í A-riðli þrátt fyrir tapið með 18 stig eftir 11 leiki.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »