„Tek það á mig ef breytingarnar ganga ekki“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var ánægður með sína menn í kvöld eftir 30:28 sigur gegn ÍBV í Olísdeild karla í handbolta. ÍBV leiddi stærstan hluta leiksins en Selfoss skoraði síðustu þrjú mörkin í leiknum, eða eins og Patrekur orðaði það svo skemmtilega í samtali við mbl.is eftir leik: „Við komumst yfir á réttum tíma.“

ÍBV byrjaði betur í leiknum og Selfyssingum gekk illa að finna leiðir í gegnum 5-1 vörnina með Magnús Stefánsson fremstan.

„Það kom mér ekkert á óvart að ÍBV skyldi vera með Magga þarna fyrir framan. Hann gerir þetta vel og hefur þau áhrif á okkur, eins og önnur lið, að það kemur fát á menn. Hann var stundum að fara frá og þá fá menn rosa mikið pláss og við vorum ekki að gera þetta nógu vel. Svo ég fór í 7 á 6 og þá komumst við inn í leikinn. Ég er ánægður með það,“ sagði Patrekur.

„Varnarlega vorum við með svipað konsept og í síðasta leik gegn Aftureldingu en mér fannst ÍBV leysa það vel, sérstaklega Kári Kristján [Kristjánsson] á línunni sem grípur allan andskotann. Þeir fundu hann vel, enda er þetta maður sem er í landsliðsklassa og það er ekkert óeðlilegt við að hann skori mörk. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik að við náum kafla í vörninni þar sem ég var að rótera aðeins með Einar Sverris og hann stóð sig mjög vel, bæði aftarlega í 5-1 vörn og líka í 6-0, til þess að reyna aðeins að rugla Eyjamennina,“ sagði Patrekur sem var stöðugt að gera breytingar á leik Selfossliðsins í kvöld.

„Já, stundum er mjög þægilegt og gott að vera með ákveðið skipulag, eins og Svíarnir sem spila 6-0 vörn og hafa gert það í 40 ár. Mér finnst bara vera mitt hlutverk að finna lausnir og breyta, og ég tek það bara á mig, ef breytingarnar ganga ekki upp. Maður tekur bara ákvörðun og stendur með henni.“

Patrekur var ekki eins ánægður með markverðina sína, Pawel Kiepulski og Sölva Ólafsson, sem samtals vörðu þrjú skot í kvöld og verður að teljast ótrúlegt að lið nái að sigra með þetta lítið framlag frá markvörðunum.

„Við vorum að fá litla hjálp frá markvörðunum í dag. Þetta var rosalegt, en við vorum reyndar í þessari stöðu í fyrra. Ég veit ekki hvað var í gangi í kvöld með Pawel og Sölva. Þeir þurfa bara að taka sig taki. Mér fannst vera uppgjöf hjá Pawel á köflum og ég veit ekki hvað er að. Ég þarf að ræða við hann, en mér fannst vanta meiri keppni í hann,“ sagði Patrekur hreinskilinn.

Þó að stemmningin í stúkunni hafi ekki verið frábær í upphafi leiks er óhætt að segja að heimamenn hafi fengið góðan stuðning yfir erfiðasta hjallann í seinni hálfleik, þar sem salurinn var við það að ærast. Patrekur var þakklátur fyrir stuðninginn.

„Ég horfi töluvert á aðra leiki en þessi stemmning sem var í gangi hérna í kvöld var frábær. Ég tek það ekki af Eyjamönnum að þeir spiluðu vel en fólkið okkar hafði trú á okkur og hjálpaði okkur upp brekkuna. Maður sér það alltaf í svona erfiðleikum hverjir standa með okkur og fólkið gerði það í kvöld.“

mbl.is