Við erum hrikalega brattir

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var á köflum einn besti sóknarleikurinn sem við höfum spilað í vetur. Við vorum að spila frábæran sóknarleik og það gekk ótrúlega mikið upp hjá okkur þar,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir 28:33-tap fyrir Val í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

Bjarni var ekki eins ánægður með varnarleikinn eins og sóknarleikinn, enda fékk liðið á sig 20 mörk í fyrri hálfleik. 

„Þetta var lélegt í vörninni í fyrri hálfleik. Þeir refsuðu rosalega vel með hröðum sóknum og ég var ekki sáttur við hlaupin heim. Við byrjuðum oft ágætlega í vörninni en duttum svo út þegar leið á sóknirnar þeirra. Þá fengu þeir góð skotfæri.“

Markmenn ÍR áttu ekki góðan dag. Stephen Nielsen varði sex skot og fékk á sig nokkur klaufaleg mörk þar sem hann átti að gera betur. 

„Stephen byrjaði mjög vel hjá okkur en svo föllum við niður og þeir ná að drita á okkur mikið af hraðaupphlaupum og það er erfitt að fá svoleiðis skot á sig. Við náðum að þétta vörnina mjög vel í seinni og þá hefði ég viljað fá fleiri varða bolta. Það hefði hjálpað okkur að klára þennan leik.“

ÍR er búið að vinna einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni, en þrátt fyrir það hefur Bjarni litlar áhyggjur. 

„Við unnum Aftureldingu fyrir jól og gerðum mjög gott jafntefli í síðasta leik. Þetta var svo mjög góður leikur. Við erum hrikalega brattir og við erum að spila góðan bolta,“ sagði Bjarni. 

mbl.is