Fram kjöldró ÍBV í fyrri hálfleik

Lena Margrét Valdimarsdóttir sækir að Greta Kavaliuskaite í Safamýrinni í …
Lena Margrét Valdimarsdóttir sækir að Greta Kavaliuskaite í Safamýrinni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Framarar sýndu sitt rétta andlit þegar liðið fékk ÍBV í heimsókn í 16. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýrina í kvöld en leiknum lauk með öruggum tólf marka sigri Fram, 39:27, en Framliðið leiddi með tíu mörkum í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum fyrstu fimm mínútur leiksins en eftir það tóku Framarar öll völd á vellinum. Eftir tíu mínútna leik var munurinn á liðunum orðinn fjögur mörk en ÍBV tókst að halda muninum í þremur mörkum, allt þangað til á fimmtándu mínútu, en þá sigldu Framarar hægt og róleg fram úr. Þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks var munurinn sex mörk og Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, tók leikhlé. Það bar lítinn sem engan árangur og var munurinn á liðunum tíu mörk þegar flautað var til hálfleiks, 20:10, Fram í vil.

Leikmenn ÍBV mættu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og tókst þeim að minnka forskot Framara niður í sjö mörk. Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var allt annað en sáttur með kæruleysið í leik sinna kvenna og tók leikhlé. Það bar fljótt árangur og Framstúlkur mættu með kassann út eftir leikhléið og voru fljótar að ná tíu marka forskoti á nýjan leik. Á síðustu fimm mínútum leiksins var allur vindur farinn úr Eyjakonum á meðan Framliðið hélt áfram að stíga á bensíngjöfina og svo fór að lokum að Framarar fögnuðu tólf marka sigri, 39:27.

Steinunn Björnsdóttir, Ragnheiður Júlíusdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru markahæstar í liði Fram en Ester Óskarsdóttir var atkvæðamest í liði ÍBV með sex mörk. Sara Sif Helgadóttir varði sex skot í marki Fram en Guðný Jenný Ásmundsóttir varði fimm skot í marki ÍBV. Fram er komið í efsta sæti deildarinnar í 25 stig, líkt og Valur sem á leik til góða á Fram, en ÍBV er sem fyrr í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum meira en KA/Þór.

Fram 39:27 ÍBV opna loka
60. mín. Sara Sif Helgadóttir (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert