Kristín með 10 í jafntefli við Val

Íris Ásta Pétursdóttir skoraði lokamarkið á Hlíðarenda.
Íris Ásta Pétursdóttir skoraði lokamarkið á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert

Valur er með eins stigs forskot á Fram á toppi Olís-deildar kvenna í handbolta eftir 23:23-jafntefli við Stjörnuna á Hlíðarenda í 16. umferð í kvöld. Haukar unnu Selfoss, 27:20.

Jafnt var á flestum tölum á Hlíðarenda í kvöld en staðan var 9:9 í hálfleik. Valur hafði frumkvæðið lengst af í seinni hálfleiknum en Stjarnan var aldrei langt undan og þegar rúm mínúta var eftir komst Stjarnan yfir í fyrsta sinn síðan í fyrri hálfleik. Íris Ásta Pétursdóttir náði hins vegar að tryggja Val stig með lokamarki leiksins.

Kristín Guðmundsdóttir skoraði 10 mörk á sínum gamla heimavelli fyrir Stjörnuna. Sandra Erlingsdóttir var markahæst Vals með 5 mörk og þær Díana Dögg Magnúsdóttir og Lovísa Thompson skoruðu 4 mörk hvor.

Valur er með 26 stig en Stjarnan er aðeins með 11 stig í 6. sæti, fjórum stigum á eftir næsta liði sem er KA/Þór. HK er í 7. sæti með 7 stig, en leik HK og KA/Þórs sem fara átti fram í kvöld var frestað.

Haukar voru 15:11 yfir í hálfleik gegn Selfossi og var sigur liðsins aldrei í hættu. Hekla Rún Ámundadóttir var markahæst með 6 mörk og Berta Rut Harðardóttir skoraði 5. Hjá Selfossi skoruðu Hulda Dís Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir 5 mörk hvor.

Haukar eru í 3. sæti með 21 stig, fjórum stigum á eftir Fram, en Selfoss er á botninum með 4 stig.

mbl.is