Leikurinn unninn í hálfleik

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eins og ávallt þá er ég ánægðastur með að fá tvö stig hér í kvöld gegn sterku liði ÍBV,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is eftir 39:27-sigur liðsins gegn ÍBV í 16. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýrinni í kvöld.

„Þetta var okkur besti leikur, sóknarlega, í vetur. Við skoruðum 39 mörk og varnarlega var liðið frábært í fyrri hálfleik. Við duttum aðeins niður varnarlega í seinni hálfleik sem er eðlilegt þar sem við vorum komin með mjög gott forskot. Heilt yfir þá er ég mjög sáttur og þetta var mjög góður leikur af okkar hálfu.“

Framarar leiddu með tíu mörkum í hálfleik, 20:10, og viðurkennir Stefán að leikurinn hafi verið svo gott sem búinn í hálfleik.

Þórey Rósa Stefánsdóttir var öflug í liði Fram í kvöld ...
Þórey Rósa Stefánsdóttir var öflug í liði Fram í kvöld og skoraði átta mörk gegn ÍBV. mbl.is/Hari

„Við spiluðum mjög vel en þegar fór að líða á leikinn missti ÍBV sjálfstraustið. Þær töpuðu stórt í síðustu umferð og eru með lítið sjálfstraust en þær komu inn með ákveðinn kraft í seinni hálfleik, eins og við var að búast, en leikurinn var unninn eftir fyrri hálfleikinn.“

Framliðið virðist vera að finna taktinn á nýjan leik eftir brösótta byrjun fyrir áramót.

„Eftir áramót höfum við verið að spila mjög vel og varnarleikurinn er alltaf að batna. Við erum gott sóknar- og hraðaupphlaupslið og þegar þetta virkar þá er erfitt að vinna okkur eins og sýndi sig hér í kvöld,“ sagði Stefán Arnarson í samtali við mbl.is.

mbl.is