Dugði að vera yfir í 172 sekúndur í Iðu

Selfyssingar fagna sigri.
Selfyssingar fagna sigri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórleikur umferðarinnar var vafalaust í Iðu á Selfossi í fyrrakvöld þar sem heimamenn í liði Selfoss unnu hreint ævintýralegan sigur á ÍBV, 30:28, eftir að Eyjamenn höfðu verið með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi.

Glöggur maður tók saman að Selfoss-liðið hefði verið með yfirhöndina í 172 sekúndur af þeim 3.600 sem leikurinn stóð yfir. Markverðir Selfoss stóðu vaktina nánast upp á punt og létu svo lítið að verja aðeins þrjú skot. Með svo slakri frammistöðu á vart að vera mögulegt að vinna leik en eins og bent hefur verið á þá var markvarsla Eyjamanna lítið skárri.

Að undanskilinni markvörslunni var frammistaða ÍBV-liðsins góð þar til í blálokin að sóknarmennirnir hættu að gera það sem þeir höfðu gert svo vel í leiknum, þ.e. að leika af þolinmæði. Langar sóknir sem enduðu með opnun eða skoti því það var nánast nóg að hitta mark Selfoss-liðsins, þá var boltinn í marknetinu. Hugsanlegt er að þreyta hafi sagt til sín hjá sóknarmönnum ÍBV en mikið hafði mætt á þeim Degi Arnarssyni og Fannari Þór Friðgeirssyni sem léku framúrskarandi vel. Breiddin í leikmannahópnum hefur óneitanlega minnkað. Sigurbergur Sveinsson er að jafna sig eftir aðgerð á ökkla og Theodór Sigurbjörnsson er frá vegna meiðsla í baki. Virkilega var gremjulegt fyrir Eyjamenn að fara heim með tvær hendur tómar eftir að hafa verið betra liðið í leiknum í 57 mínútur í Iðu.

Lögðu aldrei árar í bát

Það verður hinsvegar ekki af Selfoss-liðinu tekið að það lagði aldrei árar í bát. Það er aðal liðsins að halda stöðugt áfram á hverju sem gengur. Selfoss átti á brattann að sækja frá upphafi og þurfti að gera ítrekaðar breytingar á varnarleik sínum. Skortur á markvörslu varð heldur ekki til að blása varnarmönnum baráttuanda í brjóst. Afar góður varnarleikur ÍBV með Magnús Stefánsson í aðalhlutverki gerði leikmönnum Selfoss erfitt fyrir. Eftir að hafa leikið nokkra svipaða leiki á síðustu tveimur árum, þar sem á brattann hefur verið að sækja, vita leikmenn Selfoss að þolinmæði er dygð. Þeir hafa uppskorið oftar en ekki dýrmæt stig þótt blásið hafi í mót. Leikmenn eru frábæru leikformi, vel á sig komnir, og gefast aldrei upp. Ekki spillir fyrir að eiga traustan og góðan stuðningsmannahóp eins sannaðist í stemningunni í Iðu í fyrrakvöld.

Sem fyrr virðast Valsmenn vera með besta lið deildarinnar. Talsvert þarf út af bregða svo þeir verði ekki hið minnsta deildarmeistarar. Ekkert lið virðist geta stöðvað Valsliðið sem tekur á móti Selfossi í næstu umferð deildarinnar eftir nærri hálfan mánuð. Selfoss-liðið á ekkert erindi í Val nema að markvarslan verði í lagi. Framundan eru tveir leikir milli Selfoss og Vals. Annarsvegar í bikarkeppninni á mánudaginn og í deildinni viku síðar.

Sjá alla greinina og úrvalslið 15. umferðar í Olís-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert