Sæti KA/Þórs formlega tryggt

Sólveig Lára Kristjánsdóttir var hetja KA/Þórs í kvöld.
Sólveig Lára Kristjánsdóttir var hetja KA/Þórs í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Þrátt fyrir að enn séu fimm umferðir eftir af Olís-deild kvenna í handbolta er þegar orðið ljóst að nýliðar KA/Þórs halda sæti sínu í deildinni.

Akureyringar tryggðu sér áframhaldandi veru í deildinni með sigri á HK í Digranesi í kvöld, 29:28. Þar með er KA/Þór með 17 stig líkt og ÍBV, tíu stigum á undan HK sem er í 7. sæti. KA/Þór er auk þess með betri innbyrðis úrslit úr leikjum sínum við HK.

Leikmenn KA/Þórs geta nú einbeitt sér að baráttunni um að komast í fjögurra liða úrslitakeppnina en liðið hefur tapað báðum sínum leikjum við ÍBV í vetur og er því í 5. sæti vegna innbyrðis leikja. Liðin eru fjórum stigum á eftir Haukum sem eru í 3. sæti.

Það var Sólveig Lára Kristjánsdóttir sem tryggði Þór/KA sigurinn í kvöld með lokamarki leiksins eftir að Díana Kristín Sigmarsdóttir hafði jafnað metin. Sólveig Lára skoraði 7 mörk í leiknum en Martha Hermannsdóttir var markahæst hjá KA/Þór með 8 mörk. Hjá HK var Díana Kristín markahæst með 9 mörk og Sigríður Hauksdóttir skoraði 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert