Arnór markahæstur í endurkomunni

Arnór Þór Gunnarsson kom sterkur til baka eftir meiðsli.
Arnór Þór Gunnarsson kom sterkur til baka eftir meiðsli. AFP

Arnór Þór Gunnarsson er búinn að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir á HM í Þýskalandi og Danmörku og lék hann með Bergischer í 26:22-sigri á Wetzlar á heimavelli í 1. deild Þýskalands í handbolta í dag. 

Arnór var markahæstur í sínu liði með sex mörk og komu fjögur þeirra af vítalínunni. Arnór og félagar eru í áttunda sæti deildarinnar með 23 stig, en liðið vann sér inn sæti í efstu deild með yfirburðasigri í B-deildinni á síðustu leiktíð. 

Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk fyrir Füchse Berlin í öruggum 25:19-sigri á Gummersbach á heimavelli. Füchse er í fínum málum og í fimmta sæti deildarinnar, í baráttu um sæti í EHF-bikarnum á næsta tímabili. 

Íslensku þjálfurunum gekk ekki eins vel því Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Erlangen lágu fyrir toppliði Flensburg á útivelli, 28:18 og Hannes Jón Jónsson stýrði Bietigheim í 31:24-tapi gegn Malsungen. 

Erlangen er í 13. sæti deildarinnar með 16 stig og Bietigheim í 17. sæti með aðeins sex stig og í mikilli fallbaráttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert