Fram burstaði Selfoss

Steinunn Björnsdóttir fór mikinn í liði Fram í dag og …
Steinunn Björnsdóttir fór mikinn í liði Fram í dag og skoraði átta mörk. mbl.is/Árni Sæberg

Fram er komið í undanúrslit Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik eftir stórsigur gegn Selfossi í Hleðsluhöllinni á Selfossi í dag en leiknum lauk með tólf marka sigri Fram, 34:22.

Framliðið byrjaði leikinn miklu betur og var staðan eftir fimmtán mínútna leik 12:1, Fram í vil.

Sigur Framara var aldrei í hættu en þær leiddu með tólf mörkum í hálfleik, 17:5. Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru atkvæðamestar í liði Fram með átta mörk hvor. Hjá Selfyssingum voru það Perla Ruth Albertsdóttir og Harpar Sólveig Brynjarsdóttir sem skoruðu mest eða fjögur mörk hvor.

Átta liða úrslit bikarkeppninnar halda áfram í vikunni en á morgun mætast Haukar og Stjarnan. Á miðvikudaginn mætast svo 1. deildarlið FH og Valur og þá mætast ÍBV og KA/Þór í lokaleik átta liða úrslitanna á laugardaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert