„Stuðningsmennirnir kveiktu í okkur“

Anton Rúnarsson átti frábæran leik fyrir Valsmenn í kvöld gegn …
Anton Rúnarsson átti frábæran leik fyrir Valsmenn í kvöld gegn Selfossi og skoraði átta mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var bara geggjað. Þetta er einn af skemmtilegustu leikjunum í vetur, hörkuleikur og frábær stemmning í fullu húsi. Svona eiga bikarleikir að vera,“ sagði Anton Rúnarsson sem var markahæstur Valsmanna í frábærum sigri á Selfyssingum, 31:24, í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

Valsmenn mættu mjög tilbúnir til leiks enda voru stuðningsmenn þeirra farnir að láta vel í sér heyra löngu fyrir leik.

„Ég er ekki að grínast, stuðningsmennirnir okkar voru frábærir og gjörsamlega kveiktu í okkur. Það sást á frammistöðunni,“ sagði Anton.

Valsmenn tóku leikinn strax í sínar hendur og hleyptu Selfyssingum aldrei inn í hann. 

„Þetta var frábær leikur hjá öllu liðinu. Við erum í undirtölu helminginn af leiknum ef ekki meira og erum að berjast, vinna fyrir hver annan, það er sama hvar, menn eiga hrós skilið og við sýndum þvílíkan karakter. Í heildina var þetta mjög heilsteyptur leikur, við ætluðum bara að koma hingað og sigra, það var ekkert annað í boði,“ sagði Anton sem er til í slaginn í Laugardalshöllinni í bikarvikunni. 

„Við vildum fara í final-four og erum komnir þangað þannig að við erum hrikalega ánægðir og ætlum okkur auðvitað alla leið í þessari keppni eins og öll hin liðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert