„Við þurftum að taka sénsa“

Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Selfyssinga í kvöld.
Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Selfyssinga í kvöld. AFP

„Við áttum erfitt sóknarlega fannst mér. Þeir mættu okkur svolítið framarlega og við réðum ekki við það í dag. Það var allt of mikið af tæknifeilum hjá okkur,“ sagði Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss, eftir tapið gegn Valsmönnum í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

Valsmenn höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn og unnu sannfærandi sigur, 31:24.

„Þeir voru að neyða okkur í að drippla boltanum og við fórum í þá gildru að drippla of mikið og það var ekki nógu mikið flot á boltanum þannig að þetta var stirt á köflum. Þegar það kom flot þá opnaðist vörnin þeirra en við vorum líka að fara illa með færin þegar við fengum þessar opnanir,“ bætti Elvar við.

Selfyssingar neituðu að játa sig sigraða og á síðustu tíu mínútunum spiluðu þeir villta vörn og reyndu að hleypa leiknum upp. Það endaði þó með röð af brottrekstrum og þá var öll von úti.

„Við þurftum að taka sénsa og það heppnaðist ekki í dag. Þetta var orðið erfitt í lokin þegar við vorum orðnir tveimur færri. Þá skora þeir í hverri sókn þannig að þessi mikli munur í lokin gefur nú ekki rétta mynd af leiknum,“ sagði Elvar Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert