FH-ingar fara í Höllina

Einar Örn Sindrason sækir á þá Július Þóri Stefánsson og …
Einar Örn Sindrason sækir á þá Július Þóri Stefánsson og Gunnar Malmquist. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH er komið í undanúrslit Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla eftir að hafa unnið Aftureldingu, 29:26, að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld í hörkuleik og eftir talsverðar sveiflur. FH var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10, en Afturelding jafnaði metin í tvígang í síðari hálfleik, 22:22 og 23:23.

Aftureldingarmenn voru ekki með á nótunum fyrstu tíu mínútur leiksins. Sóknarleikurinn var í handaskolum og nýttu FH-ingar sér glópshátt Mosfellinga til þess að skora sjö af fyrstu átta mörkum leiksins á fyrstu 10 mínútum viðureignarinnar. Sannkölluð draumabyrjun hjá FH-ingum sem fylgdu þessu eftir með því að hafa tögl og hagldir fram að hálfleik þegar munurinn var fimm mörk, 15:10, Hafnarfjarðarliðinu í hag. 

Sem fyrr segir var sóknarleikur Aftureldingar slakur og leikmenn gerðu sig seka um allt of mörg einföld mistök, nánast byrjendamistök. Loks þegar Aftureldingarliðið rétti úr kútnum þá varði fyrrverandi markvörður liðsins sem hafði verið afskrifaður, Kristófer Fannar Guðmundsson, allt hvað af tók og lauk fyrri hálfleik með 50% hlutfallsmarkvörslu. FH-ingar skoruðu ríflega þriðjung marka sinn í fyrri hálfleik eftir hraðaupphlaup.

Aftureldingarliðið kom ákveðið til leiks í síðari hálfleik. Vörn liðsins vann vel og Arnór Freyr Stefánsson var vel á verði í markinu. Sóknarleikur FH var þungur og mikið mæddi á Ásbirni Friðrikssyni eins og stundum áður. Jafnt og þétt vann Afturelding niður forskot FH-inga en það var fyrst þegar tíu mínútur voru til leiksloka sem Einar Ingi Hrafnsson náði að jafna metin í fyrsta sinn í leiknum fyrir heimamenn, 22:22. Aftur var jafnt í stöðunni 23:23. Lengra komust leikmenn Aftureldingar ekki. FH-ingar áttu fleiri tromp uppi í erminni á lokasprettinum. Aftureldingarmenn gerðu mistök, jafnt í vörn sem sókn, sem FH-liðið var klókt að nýta sér og vinna leikinn með þriggja marka mun, 29:26. Afturelding var aldrei yfir í leiknum.

Tumi Steinn Rúnarsson, Finnur Ingi Stefánsson og Birkir Benediktsson voru markahæstir hjá Aftureldingu með fimm mörk hver.  Ásbjörn Friðriksson og Birgir Már Birgisson skoruðu sex mörk hvor fyrir FH og voru markahæstir.

Undanúrslit Coca Cola-bikarsins verða föstudaginn 8. mars í Laugardalshöll.

Afturelding 26:29 FH opna loka
60. mín. Birgir Már Birgisson (FH) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert