Stjarnan í undanúrslit eftir framlengingu

Maria Pereira skýtur að marki Stjörnunnar í kvöld.
Maria Pereira skýtur að marki Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Hari

Stjarnan tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik, Coca Cola-bikarnum, eftir sigur á Haukum í átta liða úrslitunum, 23:22. Um æsispennandi leik var að ræða þar sem úrslitin réðust í framlengingu.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur. Stjarnan byrjaði frábærlega og skoraði fjögur fyrstu mörk leiksins, áður en allt hrökk í baklás. Garðbæingar skoruðu ekki næstu 17 mínúturnar, fengu sex mörk í röð á sig og þurftu að elta mikið í kjölfarið.

Eftir slæma byrjun náðu Haukar undirtökunum án þess þó að hrista Stjörnuna af sér. Staðan 11:9 í hálfleik fyrir Hauka.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn vel og jafnaði fljótt metin. Ólíkt fyrri hálfleiknum gekk liðinu betur að halda dampi og leikurinn var hnífjafn og spennandi. Þegar sjö mínútur voru eftir komst Stjarnan yfir, 18:17, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 4:3 og allt í járnum fyrir lokamínúturnar.

Bæði lið fengu tækifæri til að skora á síðustu mínútunni í stöðunni 19:19. Allt kom fyrir ekki, leiktíminn rann út og því þurfti að framlengja.

Framlengingin var gríðarlega jöfn en sigurmark Stjörnunnar skoraði Þórey Anna Ásgeirsdóttir úr vítakasti. Lokatölur 23:22 og Stjarnan fer í undanúrslit í Laugardalshöllinni.

Stefanía Theódórsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoruðu sjö mörk fyrir Stjörnuna. Maria Ines Pereira var markahæst hjá Haukum með sex mörk. Markverðir liðanna áttu svo stórfína leiki. Ástríður Glódís Gísladóttir í marki Hauka og Hildur Einarsdóttir í marki Stjörnunnar vörðu báðar 20 skot.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Haukar 22:23 Stjarnan opna loka
70. mín. Leiktíminn er liðinn en Haukar eiga eftir aukakast. Nú er ALLT undir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert