Áfall fyrir Valsmenn

Róbert Aron Hostert er úr leik næstu vikurnar.
Róbert Aron Hostert er úr leik næstu vikurnar. mbl.is/Eggert

Handknattleikslið Vals verður án tveggja af sínum bestu mönnum næstu vikurnar en þeir Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hostert eru meiddir og verða að líkindum ekki með um bikarhelgina í Laugardalshöll 8.-9. mars.

Þetta kemur fram á vef RÚV í dag þar sem Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, staðfestir meiðsli leikmannanna. Róbert Aron er með sprungu í beini fyrir neðan auga og fór í aðgerð af þeim sökum en Agnar Smári er meiddur í baki og með vísi að brjósklosi, að sögn Snorra. Líklegt er að þeir verði frá keppni í sex vikur að því er segir á vef RÚV.

Valur var án beggja leikmanna þegar liðið sló út Selfoss í Coca Cola-bikarnum í fyrrakvöld en með því tryggði liðið sér sæti í undanúrslitunum í Laugardalshöll 8. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert