Gerðum jafntefli við ungmennalið Vals

Kári Garðarsson hefur áður verið í Höllinni í bikarviku sem …
Kári Garðarsson hefur áður verið í Höllinni í bikarviku sem þjálfari kvennaliðs Gróttu. mbl.is/Eggert

„Þetta er skemmtilegt krydd enda fá ekki allir tækifæri til að spila í Höllinni á sínum handboltaferli, í þessari umgjörð. Það er frábært fyrir Fjölni sem félag að vera þátttakandi í þessu,“ segir Kári Garðarsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í handbolta.

Fjölnismenn mæta í Laugardalshöll á morgun sem eina 1. deildarliðið sem enn er með í Coca Cola-bikarnum. Fjölnir mætir sigursælasta liði keppninnar, Val, kl. 18 en ræður Fjölnisliðið eitthvað við að spila við svo sterkan andstæðing?

„Það verður að koma í ljós. Við spiluðum við ungmennalið Vals fyrir 2-3 vikum og gerðum jafntefli við þá. Þetta er dálítið annað verkefni. Valur er með stórkostlegt lið, eitt allra besta lið landsins, og við þurfum að gera það sem við getum til að stríða þeim. Einn af hverjum 10 svona leikjum getur orðið spennandi en níu af hverju tíu vinna Valsmenn nokkuð örugglega. Það er nú bara staðreyndin. Vonandi verður þetta þessi eini leikur svo við stöndum í þeim,“ segir Kári við mbl.is. Kári hefur orðið bikarmeistari með kvennaliði Gróttu, árið 2015, en hann tók við Fjölni síðasta sumar.

„Þetta er mjög ungt lið sem ég er með og fáir hafa tekið þátt í svona bikarhelgi, eða bara Sveinn Þorgeirsson held ég. Ég vona því að spennustigið verði ekki of hátt. Það getur komið svona ungum leikmönnum í koll. Við þurfum því helst að stilla spennustigið af ef það er mögulegt, en ég er ekki með neina töfralausn í augnablikinu. Það er enginn einn takki sem hægt er að ýta á,“ segir Kári.

Vongóður um gula stúku

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, kvaðst á fréttamannafundi á þriðjudag vongóður um góðan stuðning við þá rauðklæddu líkt og venjan væri þegar mikið væri undir. Kári hvetur Grafarvogsbúa og annað Fjölnisfólk til að mæta í Höllina á morgun og er bjartsýnn á að liðið fái góðan stuðning þeirra gulklæddu:

„Já, ég hef góða tilfinningu fyrir því. Mér skilst að miðasalan hafi farið vel af stað og það hefur verið þannig þegar körfuboltalið okkar eða fótboltalið hafa spilað bikarúrslitaleiki að þá er vel mætt. Ég vona því innilega að það verði góð mæting og svo er vonandi að frammistaðan inni á vellinum verði líka þannig að við getum gengið stoltir af velli.“

Miðasala á bikarleikina er á tix.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert