Fáir töldu okkur eiga möguleika

Björgvin Páll Rúnarsson skýtur að marki Vals í dag.
Björgvin Páll Rúnarsson skýtur að marki Vals í dag. mbl.is/Hari

„Þeir voru vafalaust ekki margir sem töldu fyrirfram að við myndum eiga eitthvað roð í Valsmenn í þessum leik en annað kom á daginn,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis, eftir að lið hans, sem leikur í næst efstu deild, tapaði fyrir Val í framlengdum undanúrslitaleik í Coca Cola-bikarnum í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld, 28:25.

„Strákarnir stóðu sig frábærlega og léku af mikill skynsemi. Þeir voru mjög nærri því að vinna leikinn í venjulegum leiktíma. Það hefði nú orðið saga til næstu bæja,“ sagði Kári ánægður og mátti alveg vera það.

Framan af fyrri hálfleik benti fátt til þess að leikurinn yrði jafn en þegar kom fram í síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks þá komust Fjölnismenn inn í leikinn og voru aðeins marki yfir í hálfleik. Síðari hálfleikur var síðan hnífjafn og æsispennandi.

„Það var mikill sigur fyrir okkur að komast inn í leikinn á nýjan leik eftir að hafa lent fjórum mörkum yfir. Eftir það var leikurinn í járnum allan síðari hálfleik á móti frábæru liði Vals,“ sagði Kári og bætti við að hluti af leikmannahópnum hefur aldrei leikið í efstu deild og aðeins einn í hópnum, Sveinn Þorgeirsson, leikið í undanúrslitum í bikarkeppninni áður.

„Það eru margir efnilegir strákar í hópnum og mikið í þá spunnið. Þeir eru afrakstur af mjög góðu starfi sem unnið hefur verið hjá Fjölni árum saman. Ég tók við af Arnari Gunnarssyni á síðasta ári en Arnar vann frábært starf á fjórum árum sem þjálfari hjá Fjölni.“

Spurður hvort menn eigi eftir að gráta í koddann í kvöld yfir að hafa ekki náð að vinna leikinn taldi Kári ekki svo verða. „Við munum líti glaðir og ánægðir til baka til þessa leiks þótt hann hafi tapast.  Vissulega er það svolítið súrsætt að hafa ekki unnið leikinn í venjulegum leiktíma úr því að færi gafst til þess. Það hefði verið algjörlega geggjað,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert