Mættum kolklikkaðar til leiks

Valur er bikarmeistari kvenna árið 2019.
Valur er bikarmeistari kvenna árið 2019. mbl.is/Hari

„Þetta er ótrúlega sætt,“ sagði Lovísa Thompson markahæsti leikmaður Vals í sigurleiknum á Fram í úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik kvenna í Laugardalshöllinni í dag, 24:21. Lovísa skoraði níu mörk og var allt í öllu í sóknarleik Valsliðsins.

„Mér fannst trúin vera meiri hjá okkur að þessu sinni.  Við mættum kolklikkaðar til leiks frá fyrstu mínútu og það mátti vel sjá í hvað stefndi af okkar hálfu. Vörnin er okkar helsta tromp og hún var frábær frá fyrstu mínútu auk þess sem Íris Björk var frábær í markinu eins og venjulega. Síðan bættist við að sóknarleikur okkar gekk afar vel. Hann var mjög beittur þar sem langskotin okkar rötuðu í markinu en við höfum oft átt mjög erfitt með að koma langskotum okkar á markið hjá Fram í fyrri leikjum. Mörkin utan af velli hjálpuðu okkur mjög mikið, léttu okkur aðeins róðurinn,“ sagði Lovísa. „Við urðum að þora að stökkva upp og skjóta á markið til þess að draga varnarmenn Fram frá línunni. Það tókst og meira að segja þá rötuðu skotin okkar á markið sem var enn betra,“ sagði Lovísa sem varð nokkuð orðavant yfir frábærum leik liðs síns.

Lovísa sem nú varð bikarmeistari í annað sinn á ferlinum, þó er hún aðeins á tuttugasta aldursári. Lovísa var í bikarmeistaraliði Gróttu fyrir fjórum árum og þá m.a. einnig með Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og Írisi Björk Símonardóttur sem eru í Valsliðinu um þessar mundir. Þá var Unnur Ómarsdóttir, mótherji Lovísu í dag, einnig samherji hennar í Gróttuliðinu sem varð bikarmeistari árið 2015.

Valur á leik í Olís-deildinni á þriðjudagskvöldið við KA/Þór. Lovísa sagði að ekki mætti slaka á því erfiðir leikir væri framundan í deildinni og  sennilega vilja allir vinna bikarmeistarana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert