Var einfaldlega dagur Valsliðsins

Steinunn Björnsdóttir, Fram.
Steinunn Björnsdóttir, Fram. mbl.is/Árni Sæberg

„Það gekk einfaldlega afar fátt sem gekk upp hjá okkur að þessu sinni. Valsliðið var einfaldlega mikið betra að þessu sinni og  þess vegna töpuðum við,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram, eftir tap liðsins fyrir Val í úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik í Laugardalshöll í dag, 24:21, eftir að Valur náði mest átta marka forskoti í síðari hálfleik.

„Valsliðið var bara betra en við að þessu sinni. Við áttum í mestu vandræðum frá upphafi, bæði í vörn og sókn. Vörn Vals var gríðarlega sterk, henni tókst  að stöðva hlaupin okkar og voru afar fastar fyrir. Við lentum í eltingaleik sem var mjög erfiður eins og alltaf þegar maður lendir í slíku,“ sagði Steinunn.

Fram-liðið lauk fyrri hálfleik af nokkrum krafti og komst m.a. yfir einu sinni, 11:10, og var tveimur mörkum undir í hálfleik. Valsliðið lék hinsvegar afar vel á upphafskafla síðari hálfleiks og þá réðust úrslitin. „Við köstuðum leiknum frá okkur í upphafi síðari hálfleiks með mistökum í sókninni. Fljótlega lentum við fjórum mörkum undir og smátt og smátt varð leikurinn erfiðari.

Þetta var einfaldlega dagur Valsliðsins. Það er alltaf  svekkjandi að tapa en maður verður að horfast í augu við það og búa sig bara undir næstu verkefni. Í dag erum við súra og svekktar en síðan tekur næsta æfing við og fer maður að velta næstu leikjum fyrir sér. Það er leikur í deildinni fljótlega eftir helgi,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram, eftir tapið fyrir Val í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í Laugardalshöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert