HK vann Hauka og Fram slapp fyrir horn

Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld.
Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld. mbl.is/Hari

Fram vann afar nauman sigur á botnliði Selfoss, 25:24, í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld. HK, sem er næstneðst í deildinni, vann óvæntan sigur á Haukum, 25:22.

HK er eftir sem áður í 7. sæti en nú með 9 stig, tveimur stigum á eftir Stjörnunni. Stjarnan hefur hins vegar unnið báða innbyrðis leiki liðanna í vetur og endar því ofar verði liðin jöfn. Haukar eru nú aðeins tveimur stigum á undan ÍBV í 3. sætinu en eru sömuleiðis búnir að tryggja sér betri innbyrðis stöðu á milli þessara liða með tveimur sigrum í vetur.

Fram er eftir sem áður stigi á eftir toppliði Vals en liðin mætast í lokaumferðinni. Selfoss þarf að vinna alla þrjá leiki sína til þess að geta mögulega forðast fall, á kostnað HK.

Díana Kristín Sigmarsdóttir var markahæst hjá HK gegn Haukum í kvöld með 10 mörk. Staðan var 12:11 fyrir Hauka í hálfleik en HK komst svo í 20:15 og náði mest átta marka forskoti. Berta Rut Harðardóttir skoraði 5 mörk fyrir Hauka.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram með 7 mörk en Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 5 fyrir Selfoss. Selfoss var 12:11 yfir í hálfleik og komst mest í 17:14 en Fram náði svo vopnum sínum og komst yfir, 24:23, þegar tíu mínútur voru eftir. Kristrún skoraði lokamark leiksins þegar enn var meira en mínúta eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert